Jafraveiðar

Jarfanótt. –  Höfundur er veiðimaður, stangasmiður og sérlegur áhugamaður um veiðieðli.

Ferðin var planlögð með tveggja vikna fyrirvara, leyfi á jarfaveiðar á ákveðið svæði keypt og kaffiskraf hafið.

Vopnið valið og farið að hugsa um nesti og aðra praktíska hluti.
Lesið í sig spenning og myndbönd af jarfa í drápshug send á milli með smáskilaboðum.

Dýrið Jarfi (Gulo gulo) er af ætt marða og er rétt eins og frændur sínir gráðugur og snjall drápari.                        Hefst við í fjall og skóglendi og eru dæmi þess að hann sem er á stærð við meðal hund drepi kindaflokk og geymi hræin í lækjum til betri tíma. Einnig hika þeir ekki við að fella hreindýr ef færi gefst.

Því er reynt að halda stofni þeirra í hæfilegum skefjum því bjöllusauðir eru þeim afar auðveld bráð.

Mælt var út í huganum hvar í stofunni best færi að stilla honum upp og í hvaða stellingu, klassísk uppstoppun eða hvort hann væri ef til vill virðulegri með lítinn kúlahatt og vindil (ekki ólíkt Egon Olsen).

Dagarnir upp að lituðust mikið af spenning sem ætti engum af lesendum að vera ókunnur og því oft staðið sig að því að stara í tómið, jafnvel í miðjum umræðum um hvernig endurbætur skildi ráðist í með vorinu eða hvernig leikskólamáltíðir séu ekki eins og áður.

Kvöldið áður var lagt lokahönd á planið og ákveðið að hittast um klukkustund frá veiðisstað, samband var haft við bóndann að spyrjast fregna og fá nánari staðháttalýsingu. Hann fullvissaði okkur um að æti hefði verið lagt út töluvert áður og alls væri búið að safna um þremur tonnum af sláturhræjum nautgripa til að nota sem æti.

Ekki dró það úr eldmóði okkar og notaði ég leiðina “inn fjörð” til lokahugsana tengdum veiði og vangavelta um eðli veiða og þeirra tilfinninga og samkenndar sem þær vekja og kalla fram.

Jú kúluhattur væri líklegast hið eina rétta.

Ég hafði nokkrar mínútur til aflögu á meðan ég beið eftir einni af hinum stórgóðu ferjum vegakerfisins í Noregi og ákvað að setjast á bryggjuenda og reyna að fanga litla fiska á létta stöng og enn minna æti.

Firðirnir eru afar brattir, og oft jafn djúpir og tindarnir um þá eru háir. Því er fjölbreytni töluverð en næst landi hafði ég hug á fiskum af ættinni Labrus.

Eftir að hafa prílað niður bryggjustigann til að ná í olnbogaskel til að skera niður í beitu settist ég á kantinn með kaffibolla og starði spenntur á stangarendann. Jú þarna var hreyfing. Draga varlega á móti og festa, jújú þetta er fiskur!

Glæsilegur lítill hængur, varla meira en 13cm, ég kveiki mér í vindli.

Auðvitað yrði jarfinn betri með vindil líka, þetta er allt að smella saman.

Þegar ferjan kemur að landi og félaginn rúllar í land grár fyrir járnum er lagt á síðasta hjallann. Okkar staður er í 650m. hæð, og nokkuð labb frá vegi, þetta verður gaman erum við nú sammála um.

Miklar spekúleringar eru viðraðar á meðan við þjótum um snæfi þakið landslagið, allt hversdagslegt er að baki okkur, við erum á veiðum.

Er við leggjum bílnum og búum okkur er farið að húma, klukkan að verða 16. það er verra, við hefðum þurft að ganga úr skugga um að ætið sé vel staðsett, “tökuvarinn” klár og allt eins og við hefðum kosið, já og höfðum séð fyrir okkur.

En okkur til mikillar gleði kemur landeigandinn á móti okkur ofan af fjalli og segir allt klárt, “tökuvarinn” tilbúinn inn í kofanum, ætið um 80m frá kofa og allt eigi að vera hið ákjósanlegasta.

Hann sýnir okkur myndband tekið neðar í dalnum, af sporum.

Við nánast hlaupum upp hlíðina og komum að kofanum í heiðskíru húmi, vel björtu til að sjá hvernig landið liggur. Þetta er fyrirtak, einungis þarf að höggva niður lítið tré til að lýsing gangi léttar þegar að við þurfum að skjóta. 

Í snarheitum er komið sér fyrir, súpan hituð og sest inn í kofann, þröngt en við erum nokkuð sáttir þannig að það kemur alls ekki að sök.

Allar umræður þurfa frá þessu að fara fram með svipibrigðum, bendingum, augngotum og afar lágu hvísli.

Það er fyrirtak, við höfum þegar sagt all flest sem þurfti að segja, fyrir okkur liggur biðin. Þá er ekkert annað sem kemur okkur við hvurt eð er. Ég fæ mér kjötflís með súpunni.

Nokkurnveginn fullkomin stund, tveir vinir, að stara út í húmið, þögn.

Tíminn hætti að hafa þýðingu, andardrættirnir færri, einbeitningin alger.

Lognið er algert líka, rjúpukarl ropar lengra upp í hlíðinni. Við lítum stóeygðir hvur á annann.

Klukkan orðin átta án þess að við yrðum varir við að tímanum hafi vikið áfram.

Ég fæ mér kaffi, bölvuð læti í töppum almennt á hitabrúsum, það hlýtur að vera til önnur leið.

Gauka kjötflís að vininum, hann tyggur ekki sérstaklega hljótt, hvað ef Jarfinn er einmitt í þessu að hlusta? Ég sussa á hann til öryggis. Það var kannski yfir strikið, ég kinka kolli brosandi til hans. Hann hristir höfuðið og lítur aftur út um opið.

Var þetta urr? Ég sperri eyrun og píri augun út í húmið, jú gott ef ekki. Þarna var það aftur, meira eins og ýlfur. Nú er komið að því, ég teygji mig eftir ljósinu, tilbúinn að stökkva út og lýsa upp svæðið, vinurinn horfir á mig hissa og prumpar í þriðja sinn, biðst forláts með augnbrúnunum og heldur áfram að stara út í myrkrið..

Klukkan er núna orðin 2. Ég finn fyrir þreytu, best að setja upp vaktir. Við getum ekki starað alla nóttina hvurt eð er. Ég tek fyrstu vakt, tvo tíma, vinurinn leggur sig upp að vegg og lokar augunum.

Í nokkur skipti verða hálfhrotur hans að urri ófreskju ég sperrist upp og píri augun, tek af öryggið og rek fótinn í snorkandi vininn sem þá hættir að ófreskjast. Ég kinka brosandi kolli til hans.

Hans vakt, ég halla mér en hangi milli svefns og vöku, það er kalt, -15 utan kofans og við höfum ekkert kynnt síðan daginn áður. Lopasokkar eru frábærir, ákveð að senda tengdamóður minni fallegar huxanir.

Píp, grænt ljós, annað píp. Það er komið að því.

Tökuvarar eru fyrrtak.

Vinurinn horfir ráðvilltur á mig sem á móti fer að fálma í óðagoti eftir ljósi og hurð. Kinka brosandi kolli út í myrkrið á meðan ég reyni að laumast fimlega og hljótt út.

En ég er ekki fimur, ég er stirður, og því ekki hljóður.

Ég dett með andlitið ofan í skafl, sprett upp og lýsi á ætið en það er líklegast of seint, ekki kvikindi að sjá. Ég lýsi um alla kvilftina, ekkert.

Við hristum hausinn hvur til annars, það þýddi víst pása, við amk klofum snjóinn að sínhvurju trénu og skilum kaffinu áfram.

Klúðraði ég þessu? Var bröltið út um lúguna of seinlegt og mögulega of hávært?

Ójæja, laggó. Ég fæ mér kjötflís og bölva.

Klukkan er 5:30, það fer að birta. Við tökum okkur aftur stöðu.

Hreyfing er mest á Jarfanum í ljósaskiptunum, nú er ekki tími til að leggja sig.

Við erum fullir af spennu, nú þetta allt að smella saman, ég gæti jafnvel sett díóðu í vindilinn, gæti látið hann lýsast upp fyrir gesti. Afbragð.

Einbeitning er lýjandi, við litum nokkuð oft á hvurn annan með spennublik i augum en þó var örlítið nær uppgjöf með hverju brosandi kinki kolla.

Klukkan 9:30 í þá albjörtu blásum við af þögnina með löngu “jææææja”.

Ákveðið er að vaða snjóinn til að sjá hvurslags dýr ég hefði hrætt burtu með bröltinu.

Ætið skyldi gaumgæfilega skoðað ásamt tökuvörunum tveimur.

Við sjáum strax hvernig í pottinn er búið, allt ætið sem bóndinn sagði útlagt var mögulega annarsstaðar, þarna lá vömb og innvols, og fótur af kálfi. Nær 10kg og smá af slettu blóði. Efst á mjúkum snjónum, verið lagt út í gær.

Engin spor, en annar tökuvarinn fallinn af greininni sinni, ekki verið vel festur.

Heyra mátti hiksta bóndans alla leið upp dalinn.

Þrátt fyrir dræma veiði er gleðin yfir ferðinni mikil, veiði er ekki bara aflinn.

Heldur minningarnar sem maður fær á leiðinni.

Höfundur er veiðimaður, stangarsmiður og sérlegur áhugamaður um veiðieðli. Búsettur í Noregi.

Comments

comments