Landssambands veiðifélaga fundar um laxeldi ofl.

Mynd, Veiðin.is: Eggert Sk. Jóhannesson með lax í Vatnsá 

Fréttabréf Landssambands veiðifélaga kom út núna um mánaðarmótin og þar segir m.a. að aðalfundur Landssambands veiðifélaga fyrir árið 2018 verði haldinn að Hótel Miklagarði, Sauðárkróki, dagana 8. – 9. júní nk.

,, Bráðabirgðatölur fyrir stangveiði á laxi sumarið 2017 Hafrannsóknastofnun; Rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna, hefur birt bráðabirgðatölur um stangveidda laxa sumarið 2017. Eftirfarandi upplýsingar má sjá á heimasíðu hennar; hafogvatn.is – ásamt skýringarmyndum, sem ekki er unnt að birta hér vegna takmarkaðs rýmis.
„Stangveiðin 2017 var nærri langtímameðaltali.

Veiðin á Vesturlandi 2017 var svipuð og hún var 2016 en minnkun í öðrum landshlutum. Laxveiðitímabilinu er nú lokið í flestum ám landsins. Enn er þó veitt í ám þar sem uppistaðan í veiðinni er lax úr sleppingum gönguseiða, en þar stendur veiði til 20. október.

Bráðabirgðatölur yfir stangveiði á laxi sumarið 2017 sýna að alls veiddust um 46.500 laxar. Í heild var fjöldi stangveiddra laxa um 10% yfir langtímameðaltali áranna 1974-2016 sem er 41.880 laxar. Veiðin 2017 var um 6.800 löxum minni en hún var 2016, þegar 53.329 laxar veiddust á stöng. Í tölum um heildarlaxveiði eru þeir laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt).

Laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni. Til að fá samanburð við fyrri ár var metið hver laxveiðin hefði orðið ef engu hefði verið sleppt aftur og veiði úr sleppingum gönguseiða var einnig dregin frá. Sú niðurstaða leiðir í ljós að stangveiði á laxi 2017 hefði verið um 37.000 laxar, sem er rétt um meðalveiði villtra laxa.

Veiði í ám á suðvesturlandi (Reykjanes) var meiri en árið á undan en veiði á Vesturlandi svipuð og var 2016. Veiði dróst saman í öðrum landshlutum á milli ára. Laxveiðin sumarið 2017 fór fremur hægt af stað en góð veiði var í mörgum ám seinni hluta veiðitímans. Veiði af stórlaxi (laxi tvö ár í sjó) var með minna móti og átti það einnig við um smálaxa nema á Vesturlandi.

Við samanburð á gögnum um veiði og talningu úr fiskteljurum, hefur komið í ljós að almennt endurspeglar veiðin laxgengdina en þó þannig að hlutfallslega veiðist meira þegar gangan er lítil. Breytileiki á milli ára í laxveiði hefur verið meiri nú síðustu árin en áður eru dæmi um. Ástæður þess má rekja til breytinga á afföllum laxa í sjó. Fæðuskilyrði ráða þar miklu þar sem vöxtur, einkum á fyrstu mánuðunum í sjó, er minni í árum þegar laxgengd er lítil en meiri þegar laxgengd er meiri. Vatnshiti í ám hér á landi fór lækkandi frá 2003 til 2015. Í kjölfar þess dró úr vaxtarhraða seiða sem leiðir til þess að gönguseiðaaldur hefur hækkað og framleiðsla ánna dregst saman. Það tekur því lengri tíma fyrir seiðin að ná göngustærð í ánum en áður.“

,,Fundargerð stjórnarfundar LV 16. október 2017.

Fundarsetning. Jón Helgi Björnsson, formaður LV, setti fund og bauð alla velkomna til fundar. Þar voru auk hans stjórnarmennirnir; Jón Egilsson, Þráinn B. Jónsson, Stefán Már Gunnlaugsson og Jón Benediktsson, ásamt Árna Snæbjörnssyni framkvæmdastjóra. Formaður stjórnaði fundi en fundargerð ritaði Jón Benediktsson. Fundargerðir stjórnarfunda frá 8. 10. og 28. júní. 24. júlí og 22. ágúst 2017. Lagðar voru fram og undirritaðar fundargerðir þessara funda. Fjárhagur LV. Framkvæmdastjóri greindi frá fjárhagsstöðu samtakanna, innheimtu árgjalda og áætlaðri stöðu um næstu áramót. Eins og fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir verður verulegur halli á rekstri ársins en ekkert meiri en áætlað var. Innheimta árgjalda gengur eðlilega.

Ályktanir aðalfundar 2017. Afgreiðsla. A) Ályktun um umhverfisáhrif sjókvíaeldis var send Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti og Umhverfis- og auðlindaráðuneyti. B) Ályktun um áhættumat vegna sjókvíaeldis var send Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti. Áhættumatið kom síðan fram í júlímánuði og vakti afar sterk viðbrögð þeirra er tala af mestum ákafa fyrir mikilli aukningu sjókvíaeldis við Ísland. C) Ályktun um laxeldi í sjókvíum – félagasamtök og fjölmiðlaumræða. Ályktuninni var beint til stjórnar LV og er henni hvatning að láta ekki deigan síga í andófi sínu gegn óheftu sjókvíaeldi. D) Ályktun um Fiskræktarsjóð var send Atvinnu – og nýsköpunarráðuneyti. Í framhaldi af henni skipaði ráðherra nefnd sem fékk það verkefni að gera tillögur til breytinga á lögum um sjóðinn. E) Ályktun um umhverfisslys í/við veiðivötn var send Orku Náttúrunnar og Umhverfis – og auðlindaráðuneyti. F) Ályktun um umhverfi veiðivatna var beint til LV og leggur ályktunin herslu á mikilvægi góðrar umgengni við veiðivötn og að LV hvetji Vf., landeigendur og aðra er að vötnunum koma til góðrar umgengni. Formaður og framkvæmdastjóri hafa fylgt ályktununum eftir með viðtölum og fundahöldum, m.a. við alþingismenn.

Veggspjald HAFRÓ og Fiskistofu. Gefið hefur verið út veggspjald er sýnir glögglega hvernig má þekkja eldislax og regnbogasilung frá villtum fiskum. Ætlast er til að spjaldið sé haft uppi þar sem það blasir við sjónum veiðimanna.

Kynnt afstaða ríkissaksóknara (skýrsla 8. júní 2017 til LV) til kæru samkvæmt 6. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Kæra þessi varðaði frávísun lögreglustjórans á Vestfjörðum á kæru LV vegna þess að út slapp í þeim landshluta mikið af regnbogasilungi árið 2016. Ríkissaksóknari lagði fyrir lögreglustjórann að taka kæruna til nýrrar meðferðar.

Kynnt og rædd skýrsla Skipulagsstofnunar, 15. júní 2017, vegna 7.600 tonna framleiðsluaukningar á laxi í Ísafjarðardjúpi á vegum Arctic Sea Farm – Ákvörðun um matsáætlun. Skýrsla þessi setur framkvæmdaaðilanum skilmála um hverju sé nauðsynlegt að gera grein fyrir í umhverfismati vegna fyrirhugaðs laxeldis.

Síðan fram kom áhættumat vegna sjókvíaeldis má líklega segja að áætlun þessi sé í uppnámi. Einnig var kynnt á fundinum ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun vegna 10.000 tonna framleiðslu á laxi í Ísafjarðardjúpi á vegum Arnarlax, sem virðist undir sömu sök seld. Enn var kynnt ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun vegna 4.000 tonna framleiðslu á laxi í Arnarfirði á vegum Arctic Sea Farm.

Kynnt og rædd niðurstaða Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 20. júní 2017 vegna kæru LV á útgáfu starfsleyfis sem Umhverfisstofnun veitti Háafelli ehf. hinn 25. október 2016 til árlegrar framleiðslu á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Málsnúmer kærunnar var 165/2016.

Fyrr sama dag, sem kæra LV var tekin til afgreiðslu, hafði Úrskurðarnefndin fellt umrætt starfsleyfi úr gildi á grundvelli annarrar kæru um sama efni, þ.e. nálægð við laxveiðiár. Kæru LV var þess vegna vísað frá. LV gerir ekki athugasemdir við efnislega niðurstöðu en hefur gert athugasemdir varðandi málsmeðferðina þar sem síðar tilkomin kæra var afgreidd á undan kæru LV. Sjá einnig liði 11 og 12.

Kynnt bréf LV frá 21. júní 2017 til Matvælastofnunar. Í bréfi þessu krafðist LV þess að fellt yrði niður rekstrarleyfi, sem MAST hafði 15. mars s.l. veitt til árlegrar framleiðslu á 6.000 tonnum af laxi í Reyðarfirði þar sem skort hefði lagaforsendur fyrir leyfisveitingunni.

Kynnt svar Matvælastofnunar til LV, frá 7. júlí 2017, sbr. lið 9. Í svari sínu hafnar MAST kröfu LV, rökstyður forsendur sínar fyrir þeirri niðurstöðu ekki en bendir á möguleika til málshöfðunar vegna leyfisveitingarinnar.

Kynnt bréf LV, frá 6. júlí 2017, til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Beiðni um endurupptöku og efnisúrlausn máls nr. 165/2016. Sjá einnig undir lið 8. Beiðni þessa lagði LV fram í því skyni að tryggja möguleika LV til að koma að hugsanlegu dómsmáli vegna leyfisveitingarinnar. Einnig taldi LV að sameina hefði átt fyrirliggjandi kærur um sama efni þannig að báðar teldust hafa fengið efnislega úrlausn.

Kynnt svar Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 29. ágúst 2017 til LV vegna beiðni um endurupptöku og efnisúrlausn máls nr. 165/2016. Úrskurðarnefndin féllst ekki á röksemdir LV og hafnaði því beiðninni.

Kynnt og rædd fundarbókun nefndar um stefnumótun í fiskeldi frá 25. júlí 2017. Bókun þessi, sem undirrituð var af öllum nefndarmönnum, er tillaga að breytingu á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi og fjallar um tengsl áhættumats vegna erfðablöndunar við framleiðslumagn. Hörð umræða hefur sprottið af þessari bókun þar sem fiskeldismenn sjá hana sem ógnun við áætlanir sínar. Stjórn LV telur þessa bókun mikilvæga.

Bréf frá Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, frá 1. ágúst 2017, vegna ólöglegra laxveiða. Formanni var falið að athuga hvort og þá hvaða möguleikar séu á því að beita lögreglusektum fyrir veiðiþjófnað.

Kynnt og rædd skýrsla frá Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála, frá 3. október 2017, þar sem felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að nýting kalkþörungaset í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Fyrrnefnd ákvörðun var kærð til Úrskurðarnefndarinnar af LV og Veiðifélagi Miðfirðinga o.fl. sem töldu að námavinnsla skammt utan ósa Miðfjarðarár kynni að skaða lífríki fjarðarins og Miðfjarðarár og féll úrskurðurinn kærendum í vil.

Kynnt var: a) Skýrsla HHÍ – staða mála. Framkvæmdastjóri hefur verið HHÍ til aðstoðar við verkefnið. Seint hefur gengið að fá svör frá veiðifélögunum og þarf að gera átak til betri skila. Ljóst er að skýrslan verður ekki tilbúin á áætluðum tíma. Stjórnin leggur meiri herslu á að vandað sé til skýrslugerðarinnar en hvenær verklok verða.

Ákveðið var að minna formenn og fulltrúa veiðifélaga, sem koma nú í dag til fundar með stjórn LV, á að skila útsendum spurningalistum sem fyrst. b) Kynningarmál LV. Rætt um hvernig koma megi sem best á framfæri sjónarmiðum og málflutningi LV varðandi sjókvíaeldi. c) Eldi laxfiska í sjó/staða mála.

Sem stendur er óljóst hvert verður framhald þeirra áætlana um stóraukið sjókvíaeldi, sem leyfi eru þó fyrir? Jafnframt er ljóst að starfandi fyrirtæki í sjókvíaeldi eru að mestu leiti komin í eigu norskra aðila. d) Áhættumat vegna erfðablöndunar – nefndarálit. Umrætt áhættumat setur sjókvíaeldi hér á landi talsverðar skorður, sé litið á eðlilegan hátt til þess við leyfisveitingar til sjókvíaeldis. Því hefur verið illa tekið af þeim er stunda eða hyggja á sjókvíaeldi. Fram hafa komið athugasemdir þess efnis að svokölluð þröskuldsmörk þess er teljist þolanleg erfðablöndun séu of há. e) Fiskræktarsjóður – staða mála.

Nefnd um málefni Fiskræktarsjóðs hefur lokið störfum og skilað tillögum sínum til ráðherra. Vegna stjórnmálalegar óvissu er málið sem stendur í biðstöðu. Önnur mál. a) Aðalfundur LV 2018 að Hótel Miklagarði, Sauðárkróki, 8. – 9. júní 2018. Framkvæmdastjóri skýrði frá undirbúningi að aðalfundi LV 2018. Ákveðinn hefur verið ofangreindur staður og samið um verðlagningu. b) Styrkur Fiskræktarsjóðs. Fiskræktarsjóður hefur ákveðið að styrkja verkefnið ,,Verndun íslenskra laxfiska“ með framlagi að upphæð 3.000.000 kr.

Fundarslit. Var nú dagskrá tæmd og tekið að styttast til fundar með formönnum veiðifélaga um stöðu og horfur varðandi þau málefni sem LV hefur unnið að síðan á síðasta aðalfundi. Formaður þakkaði öllum fyrir góðan fund og sagði honum slitið”

Hér má nálgast Fréttabréf LV

Comments

comments